Home | Kennsluþróun | Skipulag kennslu á Menntavísindasviði skólaárið 2021-2022

Skipulag kennslu á Menntavísindasviði skólaárið 2021-2022

Unnið af kennslunefnd vorið 2021
Leiðbeinandi viðmið sem verða tekin til áframhaldandi umræðu og rýni.


Hlutverk deilda og námsbrauta í kennslumálum

 • Hver deild eða námsbraut seti viðmið um fyrirkomulag kennslu, að því marki sem hægt er, þannig að ákveðið samræmi sé innan námsleiða.
 • Á deildarfundum fjalli fulltrúi hverrar deildar í kennslunefnd reglulega um kennslumál og miðli umræðu úr sinni deild inn til kennslunefndar.
 • Samráð sé innan námsbrauta um stundatöflur og fjölda samskiptatíma á viku í kennslu (viðmið t.d. fyrir 10ECTS námskeið 2-6 kennslust.; 5 ECTS námskeið 1-3 kennslust.). Samskiptatímar geta falið í sér innlegg kennara, umræður, virkniverkefni, kynningar nemenda o.s.frv.
 • Frávik frá viðmiðum námsleiða/brauta/deilda séu borin undir deildarforseta og/eða kennslustjóra Menntavísindasviðs.

Kennslufyrirkomulag

Fjarnám, staðnám eða nám þar sem stað- og fjarnemum er kennt saman

 • Gerð er krafa um að nemendur skrái sig í staðnám eða fjarnám
 • Í Uglu (Allar aðgerðir; Uppfæra námskeiðslýsingu; Fyrirkomulag náms) og kennsluáætlun komi fram upplýsingar um fyrirkomulag náms:
  • Staðnám og hvað það feli í sér.
  • Fjarnám með virkniskyldu í rauntíma og hvað það feli í sér.
  • Fjarnám með virkniskyldu, ekki í rauntíma og hvað það feli í sér.
  • Þegar staðnemum og fjarnemum er kennt saman þarf að skýra hvernig kennslufyrirkomulagið er
 • Huga þarf að fjöldi nemenda í tengslum við kennslufyrirkomulag, til að mynda hvort þurfi að skipta upp hópum í kennslu t.d. í umræðu- og verkefnatímum.
 • Tryggja þarf að allir nemendur óháð því hvort þeir eru í staðnámi eða fjarnámi, geti nálgast sömu upplýsingar.

Staðlotur

 • Ræða og skilgreina hvað staðlotuform felur í sér þar sem það er notað.
  • Staðlotur eru nýttar á mismunandi hátt eftir námsgreinum. Almennt er gott að taka upp innlegg kennara og setja á námsvef fyrirfram en nýta staðlotutíma í verklegt nám, umræðutíma, þjálfun eða annað sem krefst virkrar þátttöku nemenda. Einnig að nemendur fái þar tækifæri til að kynnast og ræða um námið.
  • Í námskeiðum þar sem staðnemum og fjarnemum er kennt
  • Staðlotur skulu fylgja kennslualmanaki, bæði í grunn- og framhaldsnámi, þar sem því verður við komið.

Kennsluaðferðir

 • Hvatt er til fjölbreyttra kennsluhátta.
 • Kennsluhættir taki mið af hæfniviðmiðum í hverju námskeiði.
 • Upptökuinnlegg á CANVAS, bæði lengd og aðferð, fari eftir viðfangsefni og því hvað virkar best fyrir nemendur. Þó er gott að hafa í huga að rannsóknir hafa gefið til kynna að hæfilegt sé að hafa hvert innlegg ekki lengra en 10-20 mínútur. Frekar sé hægt að setja inn fleiri innlegg.
 • Mikilvægt er að ekki séu notaðar úreltar upptökur.
 • Upptökuinnleggjum þarf alltaf að fylgja eftir með annarri kennslu, t.d. staðkennslu (t.d. umræðu- og verkefnatímar) eða rauntímakennslu á neti. Mikilvægt að nýta umræðuþræði eða sambærilegar leiðir fyrir þá sem ekki geta verið með í rauntíma.
 • Upptökur úr kennslustundum hafa sitt gildi sem skráning á kennslustundum og geta verið viðbót við kennsluinnlegg á CANVAS.

Samskipti kennara og nemenda

 • Í kennsluáætlunum komi fram upplýsingar um til hvaða aðila eigi að beina fyrirspurnum og með hvaða hætti, þ.e. á námskeiðsvef á CANVAS eða með tölvupósti.
 • Viðmið um fyrirspurnir eru þau að kennarar svari þeim ekki seinna en 48 klst. eftir að erindi barst að undanskyldum frídögum. Á sama hátt geta nemendur ekki búist við svörum um helgar og á frídögum.
 • Mikilvægt er að finna leiðir til að fjarnemar geti verið í samskiptum við kennara, t.d. með tímasettum viðtalstímum á neti.

Námsmat

 • Ákveðið samræmi sé í námsmati og námskröfum innan námsleiða og deilda
 • Leggja skal áherslu á að námsmat sé hæfileg blanda af einstaklingsmati og hópverkefnum í samræmi við hæfniviðmið námskeiða. Námsmat er ýmist í formi verkefna eða prófa (skrifleg, munnleg og verkleg) og ná þarf lágmarkseinkunn 5.
 • Nýta ber prófatímabil einnig fyrir verkefnaskil í námskeiðum þar sem ekki eru próf. Skrásetja skal lokaskil verkefna í próftöflu með því að haka við þann valmöguleika í stillingum námskeiðs í uglu.
 • Próf eða lokaverkefnaskil námskeiða sem áætluð eru utan prófatímabils séu borin undir deildarforseta og kennslustjóra Menntavísindasviðs.
 • Endurtektarpróf eru haldin á hverju misseri.
 • Þegar frestir eru veittir vegna verkefnaskila skal hafa í huga jafnræði nemenda. Miðað skal við að þegar styttri frestir eru veittir, þá standi öllum nemendum námskeiðs til boða að nýta sér þá. Ef sérstakar aðstæður koma upp hjá nemendum þarf kennari að skoða hvort sami einkunnirammi sé notaður eða hvort ástæða sé til þess að lækka einkunn vegna seinkunar á skilum.

About Sigurbjörg Jóhannesdóttir