Home | Kennsluþróun | Ég er að fara að kenna á netinu! Hvað á ég að gera?!?
Ég er að fara að kenna á netinu! Hvað á ég að gera?!?

Ég er að fara að kenna á netinu! Hvað á ég að gera?!?

Hér er stuttur gátlisti með helstu atriðum sem þarf að hafa í lagi áður en fjarkennslustund yfir netið hefst. Þetta gildir hvort sem verið er að nota Zoom, Teams, Canvas Studio, Skype, eða hvað annað.

 1. Nemendur mínir eru með tengil á netfundinn, vita hvaða hugbúnað/kerfi við erum að nota og vita hvenær kennsla hefst.
   1. Vissirðu að þú getur sett upp fjarfundi í Zoom og Teams beint inn í Canvas?
   2. Þegar búin er til vefsíða inn í Canvas er í stikunni efst tákn sem lítur út eins blátt ‘V’ (smelltu hér til að sjá þetta á skjámynd). Þá birtist fellilisti og er m.a. í honum tól til að skipuleggja og setja inn boð á Teams fundi.
   3. Fyrir Zoom fundi er farið öðruvísi að. Þá er búinn til fundur í Zoom (Schedule meeting í Zoom forritinu). Zoom forritið útbýr tengil á fundinn. Sá tengill er afritaður og settur inn í Canvas sem „Ytri vefslóð“.

 2. Nemendur mínir vita hvað þeir eru að fara að gera í kennslustundinni (t.d. fyrirlestur, umræður, hópvinna, fara í breakout rooms).
  1. Dýrmætur tími getur spænst upp ef þarf að nota hann í að útskýra hvað eigi að gera í kennslustundinni. Betra er að upplýsa nemendur um það fyrirfram með skýrum leiðbeinandi texta.
 3. Nemendur mínir vita hvernig hægt er að ná sambandi við mig ef þörf er á.
  1. Nemendur í fjarnámi þurfa að vita af því að kennarinn er innan seilingar þegar á þarf að halda. Gott er að setja skýrar samskiptareglur og tryggja að engin óvissa sé um hvort eða hvernig sé hægt að hafa samband við kennarann.
 4. Ég er með trausta nettengingu.
  1. Almennt má gera ráð fyrir að þráðlausar tengingar virki nægilega vel fyrir myndfundi. Við sumar aðstæður geta truflanir orðið eftir því hvernig aðstaða notanda er og þá þarf að tryggja að hægt sé að vera í sambandi með netsnúru. Öruggast er að prófa tenginguna fyrirfram, t.d. að taka stuttan myndfund með samstarfsmanni til að kanna mynd- og hljóðgæði.
 5. Ég er komin/n inn á netfundinn minnst 15 mín. áður en kennsla hefst (má vera slökkt á mynd og hljóði þar til kennsla hefst).
  1. Nemendur eru stundum óöruggir þegar þeir taka þátt í netfundum. Ef þeir sjá að kennarinn er þegar skráður inn þegar þeir detta inn á netfundinn þá vita þeir að þeir eru á réttum stað og geta slakað á þar til kennsla hefst.
 6. Ég er með öll skjöl sem á að deila á skjá tilbúin í opnum gluggum á minni tölvu og búin/n að loka öllum óþörfum gluggum.
  1. Gott er að hafa allt tilbúið sem á að deila á skjá til að geta skipt fljótt og örugglega á milli þegar þarf. Að loka gluggum sem á ekki að nota flýtir fyrir þar sem ekki þarf þá að leita í gegnum safn af gluggum sem eru kennslunni óviðkomandi.
  2. Sumir kjósa að deila öllu skjáborðinu sínu frekar en að deila einstökum gluggum með þeim skjölum. Þetta þykir ekki ráðlegt þar sem nemendur gætu þá jafnvel séð efni sem er þeim óviðkomandi þegar verið er að skipta á milli skjala.
 7. Ég er búin/n að ganga úr skugga um að mynd og hljóð eru í lagi hjá mér.
  1. Flest forrit sem notuð eru til fjarkennslu eru með leið til að kanna hvort hljóð og mynd eru að skila sér til annarra.
  2. Í Teams er hægt að fara í „Device settings“ þegar viðkomandi er skráður inn á fundinn og sést þá hvort hljóðneminn er að nema hljóð. Mynd er hægt að skoða með því einfaldlega að virkja myndavélina inn á fundi og ætti viðkomandi þá að sjá mynd af sér í fundarglugganum.
  3. Í Zoom er notendum boðið að kanna hljóðstillingar áður en þeir fara inn á fundinn. Eins og í Teams ætti mynd af viðkomandi að sjást í fundarglugganum ef myndavél er að virka eins og til er ætlast.
 8. Ég er tilbúin/n að fylgjast vel með athugasemdakerfinu og uppréttum höndum ef einhver nemendanna vill ná athygli minni.
  1. Mikilvægt er að nemendur geti náð athygli kennara á netfundum til að láta vita ef spurningar eru eða athugasemdir. Þá þarf kennari að passa sig að fylgjast vel með spjallkerfinu og hvort nemendur eru með uppreista hönd og gefa þeim tækifæri til að tjá sig þegar þarf.
  2. Þetta verður sérstaklega mikilvægt þegar blandaðir hópar eru með í kennslustund, þ.e. sumir í kennslustofu með kennara og sumir í myndfundabúnaði. Nemendur í kennslustofu með kennara eiga þá auðveldara með að vekja á sér athygli og kennari þarf að passa sérstaklega upp á það að fjarnemar verði ekki útundan. Kennari ætti að passa sig að kíkja reglulega á tölvuskjáinn til að sjá hvort fjarnemar eru að reyna að ná athygli hans. Jafnvel má fá aðstoð nemenda í kennslustofunni við þetta með því að biðja þá um að fylgjast líka með fjarnemum og láta kennara vita þegar fjarnemi vill ná athygli hans.

ÓKEI! 1 … 2 … og … byrja!

About Tryggvi Thayer