Home | Kennsluþróun | Reiknivél fyrir ECTS einingar til nota við skipulagningu námskeiða
Reiknivél fyrir ECTS einingar til nota við skipulagningu námskeiða

Reiknivél fyrir ECTS einingar til nota við skipulagningu námskeiða

Bent hefur verið á að Baldur Sigurðsson hafi útbúið ECTS reiknivél sem margir við MVS og víðar í HÍ hafa notað. Sú reiknivél er töluvert ítarlegri en sú sem hér var kynnt. Reiknivélin er hýst á vef Ritvers HÍ og má nálgast hana og tengt fræðslu- og útskýringarefni hér (sjá neðst á viðkomandi síðu undir „Áætlun um vinnu stúdenta“). Einnig má sækja reiknivélina (Excel skjal) beint með því að smella hér.

 

ECTS háskólaeiningakerfið, eða the European Credit Transfer System, er eitt af fjölmörgum tólum sem hefur verið þróað til þess að stuðla að auknu samstarfi og gagnsæi innan evrópska háskólasvæðisins. ECTS kerfið er staðlað einingakerfi sem allir háskólar innina evrópska háskólasvæðisins nota og á því að einfalda mat á námi milli háskóla. Kerfið byggir á áætluðu vinnuálagi nemenda í tilteknum námskeiðum þannig að hver eining jafngildir u.þ.b. 25-30 klst. námsvinnu, og er þá meðtalið lestur, tímasókn, verkefni, úrvinnsla verkefna og annað tilheyrandi. Til þess að tryggja það gagnsæi sem ECTS er ætlað að stuðla að er mikilvægt að einingafjöldi sé rétt reiknaður miðað við það vinnuframlag sem ætlast er til af nemendum.

Vinnslugluggi ECTS reiknivélarinnar.

Reiknilíkanið sem má sækja hér fyrir neðan er sett upp í Microsoft Excel og ætlað að hjálpa kennurum að skipuleggja nám í samræmi við einingafjölda námskeiða. Líkanið er ekki ætlað að vera stýrandi né leiðbeinandi á nokkurn hátt, heldur aðeins til viðmiðunar, enda er námskeið oft mjög ólík og því erfitt að ætla að eitt reiknilíkan geti þjónað öllum á sama hátt.

Settar hafa verið inn viðmiðunartölur fyrir 5, 10 og 15 eininga námskeið. Notandi setur inn gildi samkvæmt leiðbeiningum sem eru undir reikniforminu. Reikningur byggist á fjölda verka og tímakvarða sem er áætlað að fari í hvert verk.

Mynd: David Stobbe

Athugið að tímakvarðinn miðast ekki við hvað tiltekið verk eitt og sér tekur, heldur þann tíma sem áætlað er að nemandi taki til vinna verkið og vinna úr því. Til dæmis er áætlað vinnuálag fyrir lestur 10 bls. rannsóknargreinar rúmlega 3 klst. Auðvitað tekur það háskólanemanda ekki 3 klst. að lesa eina 10 bls. grein. Heldur er ætlast til að nemandinn lesi greinina og vinni úr efni hennar, t.d. að auka skilning á mikilvægum hugtökum, skoða tengt lesefni og fleira, taka þátt í umræðum um efni greinarinnar, og fleira.

Einnig þarf að hafa í huga að fyrirlestrar, málstofur og annað slíkt geta verið af ýmsu tagi og þarf því að hafa það í huga. Til dæmis er áætlað að einn fyrirlestur jafngildi 2 klst. Hins vegar má gera ráð fyrir að vandlega unnið 10-15 mínútna myndskeið sem notað er fyrir vendinám geti jafngilt 1. klst. fyrirlestur.

Kennarar þurfa því að hafa í huga hvað þeir vilja gera í sinni kennslu og til hvers er ætlast af nemendum og stilla gildi í reiknilíkaninu í samræmi við það.

Þau gildi sem hafa verið sett inn byggjast á margvíslegum gögnum, s.s. viðmiðum Evrópusambandsins, rannsóknum á námsvenjum háskólanema og öðrum reiknilíkönum sem notuð eru í háskólum víðsvegar í Evrópu. Notendur geta breytt gildunum eftir þörfum. Upphaflegu gildin eru ávallt varðveitt í síðunni „Viðmiðunargildi (5 ECTS)“, sem almennir notendur eiga ekki að geta breytt.

Þetta er verk í mótun. Ef einhverjar athugasemdir eru eða breytingartillögur, vinsamlegast hafið samband við Tryggva Thayer (tbt@hi.is), kennsluþróunarstjóra MVS.

Smellið hér til að sækja reikniskjalið á OneDrive. Munið að vista skjalið á eigin tölvu eða svæði á OneDrive til að vinna með það.

About Tryggvi Thayer